Hlustaðu á sögur heimamanna

Hefur þú heyrt um síðustu aftökuna á Íslandi?
Hlustaðu á sögu frá Magnúsi Ólafssyni þar sem hann segir frá þegar pabbi hans og afi grófu upp bein Agnesar og Friðriks.


Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Vilhjálmi Bergmanni Bragasyni.

 

"Agnes og Friðrik höfðu verið dæmd til dauða fyrir morð á tveimur mönnum aðfaranótt 14. Mars 1828, Natans Ketilssonar bónda á Illugastöðum og Péturs Jónssonar frá Geitaskarði.
Sýslumaðurinn Björn Blöndal lét útbúa sérstaka upphækkun fyrir aftökuna. Þetta var staður sem hann valdi vegna góðs aðgengis og hér var auðvelt að ná 150 manns saman og allir áttu að horfa á. Raðaði þeim í þrjár raðir í kringum aftökustaðinn og það mátti enginn undan líta. Þeir bændur sem voru forfallaðir þurftu að senda vinnumann í sinn stað.
Friðrik kom ríðandi til aftökunnar á hesti sínum, fór af og kastaði kveðju á fólkið, heilsað Blöndal sýslumanni og Guðmundi böðli. Ungur maður sem ekki var orðinn tvítugur og kemur syngjandi til sinnar eigin aftöku.
Guðmundur böðull gekk til síns verks og höfuðið rúllaði af í einu höggi.
Áhorfendurnir hafa væntanlega staðið svo nálægt að ekki sé ólíklegt að það hafi fengið blóðslettur yfir sig.
Agnes kom hinsvegar með allt öðru hugarfari. Hún kom mjög niðurhnípt á staðinn og fannst hún ekki hafa komið sinni málsvörn að hvernig með hana var farið. Hún náði aldrei að vinna úr þessum málum meðan hún var í þessum heimi. Hún fór mjög ósátt. Er jafnvel ósátt enn og finnst allt hafi verið sér mótdrægt og enginn vildi hlusta á hana meðan hún var enn á lífi. Fátækar vinnukonur áttu engan málsvara árið 1828. Þær áttu bara að sitja og standa eins og húsbóndinn bauð. Það þarf að setja sig inní aðstæður – hvað eiga ungar konur að gera þegar þær eru fastar í vistarböndum hjá mönnum sem stjórna algjörlega öllu. Þú kemst ekkert í burtu.
Það er vitað mál að Agnes og Sigríður reyndu báðar að komast í burtu frá Illugastöðum. Húsbændurnir voru allsráðandi á þessum tíma og vinnukonurnar voru ekki merkilegar.

Það mátti ekki grafa sakborninga í vígðri mold á þessum árum þannig að þau voru dysjuð nálægt aftökustaðnum. Höfuðin sett á stangir eins og lög þess tíma geri ráð fyrir. Morguninn eftir aftökuna voru höfuðin horfin.
Enginn vissi hvað varð um höfuðin en hún Guðrún, húsfreyja á Þingeyrum hafði þá sent ungan vinnumann af stað og bað hann um að taka höfuðin niður og setja í nýtekna gröf á Þingeyrum. Henni fannst ekki annað hægt en að grafa höfuðin.
Mörgum árum seinna, kemur maður til afa míns sem bjó á Sveinsstöðum þar sem Þrístapar standa. Hann sagðist vera búinn að fá leyfi til að grafa upp bein Agnesar og Friðriks og bað afa um að hjálpa sér. En afi sagði að það gæti verið mjög erfitt þar sem hann vissi ekkert hvar gröfin væri, hann væri búinn að búa þarna alla sína tíð og oft velt fyrir sér hvar hún væri en vissi það ekki.
Maðurinn kom með upplýsingar um hvar gröfin gæti verið þar sem hann væri þangað kominn að beiðni Agnesar Magnúsdóttur, hún hefði sent skilaboð með ásjálfráðri skrift, til að gera þetta.
Maðurinn bætti við að Agens hefði komið því áleiðis að vinnumaðurinn á Þingeyrum hefði sannarlega farði út um nóttina eftir aftökuna en brast kjarkur að bera höfuðin 6km leið að kirkjugarðinum á Þingeyrum. Hann gróf því höfuðin nálægt þar sem kassinn með líkum okkar er grafinn, segir Agnes í skriftinni. Hann náði ekki mínu höfði af stönginni þannig að hann braut stöngina, segir Agnes.
Þeir byrjuðu að grafa – þessi maður, afi minn og pabbi minn sem þá var 19 ára.
Það tók þá 15 mínútur að finna gröfina með því að reka niður járnstöng, þeir fundu spýtur þar undir, bein Agnesar og Friðriks voru grafin í kassa og þegar þeir héldu áfram að grafa fundust tvær höfuðkúpur…. Það var 10cm spýtubrot við aðra þeirra.
Bein þeirra voru grafin upp og lögð í vígða mold á Tjörn á Tjörnesi, 104 árum seinna.

Það er magnað hvernig Agnes kom því til leiðar að bein þeirra Friðriks voru grafin upp. Hvernig hún kom skilaboðum til skila í gegnum þessa konu sem skrifar niður að þau vilji að bein þeirra verði lögð í vígða mold og Agnes vísar á hvar höfuð þeirra eru grafin, nálægt aftökustaðnum sjálfum. Hörðustu efasemdarmenn sem hafna lífi eftir þessa jarðvist eiga erfitt að finna mótrök gegn því sem á borði liggur."