Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Birnu Pétursdóttur.
"Ég heiti Birna Björnsdóttir og er 77 ára gömul.
Á 7 ára afmælisdaginn minn rættist draumurinn þegar ég fór með mömmu að salta síld í fyrsta skipti. Ég var búin að bíða spennt eftir að geta byrjað að taka þátt í söltuninni. Við sem litlar stelpur æfðum okkur að raða þvottaklemmum í makintos dalla, svo spennandi þótti okkur að fá að taka þátt.
Ég var svo lítil að ég náði ekki ofaní síldartunnurnar þannig að ég stóð uppá söltunarkassa og mamma lagði niður í miðja tunnuna og ég tók við eftir það. Hún kenndi mér handtökin.
Þennan fyrsta dag stal ég hnífnum þegar hún skrapp frá í kaffi – ekki var hún ánægð með mig þá en sá fljótt að ég kunni vel handtökin og átti erfitt með að banna mér að munda hnífinn eftir það.
Ég var síldarsjúk og er enn.
Mér fannst aldrei vera komið sumar fyrr en síldarbátarnir komu – þá fylltist bærinn af allskonar fólki.
Flest allar konurnar í bænum unnu sem síldarstúlkur á sumrin.
Þetta var mikið líf og fjör og ekki skemmdi fyrir að bærinn fylltist af fallegum strákum líka. Þetta var svo skemmtilegur tími. Já það var mikið unnið og mín lengasta vakt var einn og hálfur sólarhringur. Ég ætlaði að ná að vinna 2 sólarhringa í röð, pabbi ætlaði aldrei að ná mér heim … en við skemmtum okkur svo vel – fórum á böll, sungum og dönsuðum öll kvöld og fram á nótt.
Þegar síldin kom inn með bátunum, þá þurftum við að vera tilbúnar að byrja að vinna. Ræsararnir, það voru strákar svona 11-12 ára, sáu um að ræsa okkur út þegar bátarnir komu inn. Gengu hús úr húsi og bönkuðu á svefnherbergisgluggana. Stundum vorum við á miðju balli þegar lúðrarnir blésu og við þurftum að fara að vinna aftur. Fórum þá úr sparigallanum og í vinnufötin. Það var aldrei unnið neitt eftir klukku og það voru auðvitað engir símar á þessum tíma.
Ég átti heima í útjaðri bæjarins, svolítið frá söltunarstöðinni þannig að ég geymdi sparifötin mín hjá vinkonu minni sem átti heima í miðbænum. Þannig að strax eftir vinnu fór ég heim til hennar, fór úr stígvélunum og skipti yfir í sparigallann. Við gengum um göturnar í pinnahælum og dönsuðum og höfðum gaman…
Ég elska síldina og hef verið sjúk í hana alla mína tíð, og er enn. Það er svo skemmtilegt að taka þátt í síldarsýningunum á sumrin hjá Síldarminjasafninu, hef verið í því í 30 ár. Þar söltum við síldina, syngjum og dönsum – skemmtum okkur eins og gert var í gamla daga.
Þótt ég sé orðin 77 ára gömul er ég þakklát fyrir að hafa góða heilsu. Aldrei fékk ég í bakið og ég held að síldarvinnan hafi náð að halda mér í góðu formi. Eina sem er að hrjá mig er annað hnéið – en ég er sannfærð um að það vegna þess hve mikið ég hef dansað!"