Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Vilhjálmi Bergmanni Bragasyni.
"Ég heitir Ingólfur Kristinn Ásgeirsson.
Ég ólst upp á Grenivík við mikið frjálsræði og í minningunni var alltaf gott veður á sumrin. Við fórum út á morgnana og lékum okkur langt fram á kvöld, fórum bara heim þegar við vorum svöng.
Á veturna kom venjulega mjög mikill snjór, það var oft stórhríð í marga daga og mikil ófærð. Þannig veður var þegar ég fæddist þann 3.janúar 1968. Mig langar að segja ykkur stuttlega frá þeim degi þótt ég mun ekkert eftir honum, en móðir mín gleymir honum seint.
Um morguninn er mamma komin með mikla verki og finnur á sér að það er farið að styttast í fæðinguna. Henni líst ekki á blikuna því úti var brjálup stórhríð og það sást ekki í næsta hús. Allir vegir voru kolófærir. Það var ákveðið að reyna að komast með snjóbíl til Akureyrar, á fæðingadeildina þar. Björgunarsveitin á Grenivík átti lítinn snjóbíl og faðir minn sá um að keyra hann. Pabbi fær félaga í björgunarsveitinni til að moka bílinn upp með sér því bæði hús og tæki voru á kafi í snjó.
Þegar bíllinn var klár og það átti að fara að sækja mömmu þá sáu björgunarsveitarmenn að snjóbíllinn var ekki á númerum. Það sem þeir voru frekar löghlýðnir var ákveðið að fara til hreppstjórans og sækja númerin, því ekki væri gott ef þeir rækjust á lögregluna á Akureyri og væru sektaðir. Hreppstjórinn bjó 3km sunnan við Grenivík og tók ferðalagið fram og til baka 1 klukkutíma.
Konunum þóttu þetta ferðalag eftir númeraplötunum ekki gáfuleg ráðstöfun, það skipti litlu máli hvort það væri númer á bílnum eða ekki í þessu brjálaða veðri. Þegar allt er klárt er mamma lögð á börur í þennan pínulitla snjóbíl og lagt af stað. Með pabba voru 2 aðstoðarmenn til að hjálpa, því ekki veitti af. Það þurfti að halda börunum stöðugum og á löngum köflum þurfti annar að labba á undan bílnum því ekki sást útúr augum. Ferðalagið gekk hægt en örugglega fyrstu 15 km en þá munaði litlu að illa færi þegar bíllinn fór nánast á hliðina og munaði litlu að hann rúllaði framaf. Menn náðu þó að rétta bílinn og allt fór vel. Svona mjakaðist litli snjóbíllinn kílómeter fyrir kílómeter í rólegheitunum áfram. Þegar nær dró Akureyri fór veðrið að skána og hægt að keyra hraðar. Ekki veitti af því litli strákurinn vildi ólmur fara að koma í heiminn. Þegar á sjúkrahúsið er komið er mamma borin inn á börunum og lögð í rúm þar sem pabbi rétt nær að kveðja hana áður en hann fer til baka útá Greivík því á þessum tíma máttu karlmenn ekki vera viðstaddir fæðingu. Manna er drifin inná fæðingadeildinga og ekki mátti tæpara standa því þegar hún kom innúr dyrunum þá skaust ég í heiminn háorgandi og hef ekki þagnað síðan, segja allavega sumir!
Um það bil viku seinna sækir pabbi okkur á fæðingadeildina og við höldum heim á Grenivík. Þá var veðrið mun betra, búið var að moka veginn og ferðalagið gekk betur.
Þetta ferðalag, þann 3. Janúar 1968 tók um 6 klukkustundir en í dag, á venjulegum degi tekur það um 30 mínútur."