Norðurstrandarleið - ARCTIC COAST WAY
Norðurstrandarleið snýr baki við troðnum slóðum og beinir ferðamanninum inn á hið fáfarna og afskekkta – að kanna norðurströnd Íslands í næsta nágrenni við heimskautsbauginn. Norðurstrandarleið fer um alla strandlengjuna, frá Hvammstanga í vestri til Bakkafjarðar í austri.
Hér gefast ótal tækifæri til að komast út fyrir rammann og finna frelsið. Norðurstrandarleið snýst ekki einvörðungu um akstur; hún býður ferðamanninn velkominn með sögum og upplifunum í hverri beygju og á hverri hæð. Norðurstrandarleið hvetur gestina til að gleyma sér í óspilltu náttúrulegu umhverfi, njóta orkustreymisins og taka þátt í daglegum viðburðum, allt frá notalega spennandi ævintýraferðum til krefjandi könnunar og upplifunar um leið og þeir kynnast náttúrulegum vettvangi villtra dýra og fugla. Norðurstrandarleið myndar samband við annars konar lífshætti, tengda hafi og norðlægri búsetu.
Norðurstrandarleið, með sína 900 kílómetra sem bíða skoðunar og könnunar, er síkvik og breytileg. En svona ferðalag lýtur ekki mælistiku fjarlægðar, heldur birtist í óvæntum augnablikum sem verða til þess að gestirnir vilja helst koma aftur og aftur. Dramatísk sveifla birtunnar frá miðnætursól til norðurljósa og litróf árstíðanna, allt frá mjallhvítu fannfergi vetrarins til litríkra blæbrigða ilmandi haustgróðursins býður upp á nýja ferð hverju sinni, með óvæntum ævintýrum og nýjum sögum.