Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Birnu Pétursdóttur.
"Ég heiti Hulda Signý Gylfadóttir og er fædd árið 1975. Ég er alin upp í Grímsey ásamt bræðrum mínum. Ég á tvær eldri hálfsystur sem ólust upp uppi á landi.
Að alast upp í Grímsey var dásamlegt. Allir á eyjunni voru í miklu samneyti, fólk var duglegt að hittast og börn ólust upp með fjölbreyttan aldurshóp í kringum sig þar sem við áttum í miklum samskiptum við fullorðið fólk.
Við vorum með í öllu, það var enginn leikskóli eða eftirskólavistun svo við fórum með á bjarg, tókum þátt í heyskap og öðrum verkum. Þegar farið er á bjarg er verið að síga niður bjargið eftir svartfuglseggjum. Þá fóru karlar upp á bjarg (voru alltaf karlmenn þegar ég var krakki) og einn sat við traktorinn og ýmist hífði eða slakaði reipinu (eftir því sem sigmaðurinn kallaði að ætti að gera), einn seig og þriðji var á “sjónbjargi”, en þá lá hann frammi á brúninni og kallaði til þess sem slakaði og hífði hvað sigmaðurinn vildi láta gera. Svo var mikil spenna að fá að telja eggin þegar sigmaðurinn kom upp með pokann.
Foreldrar mínir voru með kindur, en það voru nú aðallega bræður mínir sem tóku þátt í að sjá um þær, ég var meira fyrir að leika bara við lömbin á vorin, en var ekki að miklu gagni í fjárhúsunum. Á vorin fórum við líka í kríueggjaleit, borðuðum bjargegg og komumst í sumarfrí.
Í skólanum voru bara tvær kennslustofur, yngri deild og eldri deild og þar lærðu nokkrir árgangar saman í hvorri þeirra. Það var engin sundlaug svo reynt var að koma börnum á sundnámskeið á sumrin.
Við lékum okkur mikið út við, úti um alla eyju, bæði á sumrin og veturna. Fórum í fjöruferðir og týndum kuðunga, sjóhatta og skeljar, sigldum á Sandvíkurtjörninni, dunduðum okkur í “búinu” (litlum kofa sem við áttum), lékum okkur í snjónum, fórum á skauta á Sandvíkurtjörninni og lékum okkur í útileikjum á kvöldin. Yfirleitt vorum við allt árið í Grímsey, fórum í land ca. einu sinni á ári þegar farið var í sumarfrí “upp á land”. Ég upplifði mikið frelsi og naut mín í eyjunni minni.
Skólinn heima var bara barnaskóli svo þegar við þurftum að fara í gagnfræðaskóla þurftum við að fara og vera í burtu yfir veturinn. Ég fór til Ísafjarðar þegar ég var tólf ára og saknaði eyjunnar og fjölskyldunnar mikið."