Akureyri - Var töluð danska á Akureyri á sunnudögum?
Akureyri - Var töluð danska á Akureyri á sunnudögum?
Hlustaðu á sögu frá Tryggva Gíslasyni, fyrrverandi skólameistara Menntaskólans á Akureyri.
Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Vilhjálmi Bergmanni Bragasyni.
"Akureyri hefur stundum verið kölluð „danski bærinn" enda voru fyrstu íbúarnir danskir kaupmenn sem höfðu vetursetu inni á „gömlu" Akureyri, í fyrsta skipti veturinn 1718 til 1719, að því er sagan segir.
Um fasta byggð var ekki að ræða fyrr en upp úr miðri 18. öld en frá árinu 1777 var fyrirskipað að kaupmenn skyldu hafa hér vetursetu. Minjar frá danska tímanum er enn að finna á Akureyri, einkum í nöfnum húsa.
Annað sem stundum hefur verið talið loða við Akureyri eru dönskuslettur í máli manna, þótt þær hafi raunar loðað við fleiri. Þá hafa Akureyringar stundum verið sagðir tala dönsku á sunnudögum og hefur mörgum þótt þetta smáfyndið. En ef til vill er á því skýring hvers vegna Akureyringar eru sagði hafa talað dönsku á sunnudögum. Þegar búseta hófst á Akureyri var þar engin kirkja, enda fátt fólk annað en nokkrir danskir kaupmenn. Sóknarkirkjan var að Hrafnagili og þangað sóttu Akureyringar kirkju, allir nema kaupmenn. Um 1850 óskuðu íbúar Akureyrar eftir því að fá að byggja kirkju sem annexíu frá Hrafnagili en því var neitað í upphafi. Með konungsúrskurði hinn 18. maí 1851 var Akureyringum og bændum í nágrenninu leyft að byggja kirkju á eigin kostnað á Akureyri. Ekki var þó hafist handa um smíðina fyrr en árið 1861 og lágu til þess ýmsar ástæður. Nýja kirkjan var svo vígð árið 1863. Á nýju kirkjunni voru aðeins einar dyr, eins og tíðkaðist á flestum íslenskum kirkjum. Fóru danskar frúr á Akureyri þá til séra Daníels prófasts Halldórssonar að Hrafnagili og báðu hann um að sjá svo til að settar yrðu aðrar dyr á kirkjuna til þess að heldra fólkið þyrfti ekki að ganga um sömu dyr og almúginn. Segir sagan að prófastur hafi svarað því til að hann hafi aldrei heyrt þess getið að tvennar dyr væru á himnaríki. Og við það sat.
Til eru frásagnir af guðsþjónustum sem danskir kaupmenn héldu á Akureyri áður en kirkja var reist - og jafnvel eftir að hún reis af því að dönsku frúrnar vildu ekki ganga um sömu dyr og sauðsvartur almúginn. I þessum guðsþjónustum var töluð danska og notuð dönsk biblía og dönsk sálmabók, eins og eðlilegt var af því að móðurmál kaupmannanna var danska. Almúginn varð vitni að þessu því að Akureyrarkaupmenn höfðu íslenskar stofupíur, einkum úr nágrannasveitum. Urðu þær auðvitað vitni að því að töluð var danska við þessar andaktir eða guðsþjónustur kaupmanna á sunnudögum. Af þessum sökum töluðu menn í Eyjafirði og nærsveitum um að á Akureyri væri töluð danska á sunnudögum, sem var satt og rétt. Virka daga reyndu kaupmenn svo að tala íslensku við almúgann og gekk það auðvitað upp og ofan."