Hlustaðu á sögur heimamanna

Heimamenn segja frá 

Norðurstrandarleið tengir gesti sína við upprunalega, ósnortna og óspillta náttúru og kynnir þá fyrir fjölbreyttu landslagi milli fjalls og fjöru. Hér gefur að líta friðsæl sjávarþorp þar sem fólk hefur búið öldum saman og á sér sögu og menningu mótaða af nánd við hafið og heimskautsbauginn. Hér er hægt að njóta slökunar og varpa frá sér áhyggjum hversdagslífsins. Upplifanir á leiðinni og sögur heimamanna eru ógleymanlegar og einstakar minninga sem ferðamennirnir taka með sér heim til vina og fjölskyldu. 

Akureyri - Var töluð danska á Akureyri á sunnudögum?

Akureyri - Var töluð danska á Akureyri á sunnudögum?
Hlustaðu á sögu frá Tryggva Gíslasyni, fyrrverandi skólameistara Menntaskólans á Akureyri.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Vilhjálmi Bergmanni Bragasyni.

 

 

 

"Akureyri hefur stundum verið kölluð „danski bærinn" enda voru fyrstu íbúarnir danskir kaupmenn sem höfðu vetursetu inni á „gömlu" Akureyri, í fyrsta skipti veturinn 1718 til 1719, að því er sagan segir.
Um fasta byggð var ekki að ræða fyrr en upp úr miðri 18. öld en frá árinu 1777 var fyrirskipað að kaupmenn skyldu hafa hér vetursetu. Minjar frá danska tímanum er enn að finna á Akureyri, einkum í nöfnum húsa.

Annað sem stundum hefur verið talið loða við Akureyri eru dönskuslettur í máli manna, þótt þær hafi raunar loðað við fleiri. Þá hafa Akureyringar stundum verið sagðir tala dönsku á sunnudögum og hefur mörgum þótt þetta smáfyndið. En ef til vill er á því skýring hvers vegna Akureyringar eru sagði hafa talað dönsku á sunnudögum. Þegar búseta hófst á Akureyri var þar engin kirkja, enda fátt fólk annað en nokkrir danskir kaupmenn. Sóknarkirkjan var að Hrafnagili og þangað sóttu Akureyringar kirkju, allir nema kaupmenn. Um 1850 óskuðu íbúar Akureyrar eftir því að fá að byggja kirkju sem annexíu frá Hrafnagili en því var neitað í upphafi. Með konungsúrskurði hinn 18. maí 1851 var Akureyringum og bændum í nágrenninu leyft að byggja kirkju á eigin kostnað á Akureyri. Ekki var þó hafist handa um smíðina fyrr en árið 1861 og lágu til þess ýmsar ástæður. Nýja kirkjan var svo vígð árið 1863. Á nýju kirkjunni voru aðeins einar dyr, eins og tíðkaðist á flestum íslenskum kirkjum. Fóru danskar frúr á Akureyri þá til séra Daníels prófasts Halldórssonar að Hrafnagili og báðu hann um að sjá svo til að settar yrðu aðrar dyr á kirkjuna til þess að heldra fólkið þyrfti ekki að ganga um sömu dyr og almúginn. Segir sagan að prófastur hafi svarað því til að hann hafi aldrei heyrt þess getið að tvennar dyr væru á himnaríki. Og við það sat. 

Til eru frásagnir af guðsþjónustum sem danskir kaupmenn héldu á Akureyri áður en kirkja var reist - og jafnvel eftir að hún reis af því að dönsku frúrnar vildu ekki ganga um sömu dyr og sauðsvartur almúginn. I þessum guðsþjónustum var töluð danska og notuð dönsk biblía og dönsk sálmabók, eins og eðlilegt var af því að móðurmál kaupmannanna var danska. Almúginn varð vitni að þessu því að Akureyrarkaupmenn höfðu íslenskar stofupíur, einkum úr nágrannasveitum. Urðu þær auðvitað vitni að því að töluð var danska við þessar andaktir eða guðsþjónustur kaupmanna á sunnudögum. Af þessum sökum töluðu menn í Eyjafirði og nærsveitum um að á Akureyri væri töluð danska á sunnudögum, sem var satt og rétt. Virka daga reyndu kaupmenn svo að tala íslensku við almúgann og gekk það auðvitað upp og ofan."

Ánastaðir - Hvalreki kom í veg fyrir hungur

Vissir þú að hvalrekinn mikli á Ánastöðum 1882, bjargaði fólki víðsvegar um landið frá hungursneyð?
Hlustaðu á sögu frá Sólveigu Benjamínsdóttur sem er forstöðumaður safna í Húnaþingi vestra.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Birnu Pétursdóttur.

 

"Ég heiti Sólveig H. Benjamínsdóttir og er forstöðumaður safna í Húnaþingi vestra.
Etirfarandi texti er byggður á frásögn Guðmundar Jónssonar frá Ánastöðum árið 1939.
Sagan um hvalrekann á Ánastöðum, sem átti sér stað þann 25. maí árið 1882, byrjar í raun tveimur dögum fyrr. Þann dag var aftakaveður, stórhríð um allt land og hafís í kring um landið. Í óveðrinu rak ísinn nær landi og fyllti alla firði. Þann 25. maí var veðrinu byrjað að slota og tók þá bóndinn á Ánastöðum, Eggert Jónsson, eftir tugum hvala í vík nokkurri sunnan við bæinn. Hvalirnir voru fastir í ísnum sem rekið hafði að landi dagana áður. Eggert sá að þarna var kjörið tækifæri til veiða og fór að víkinni þar sem hvalirnir lágu. Hann lét binda um sig landfastann kaðal ef ske kynni að hann myndi falla í sjóinn. Hann notaði síðan sveðju til að skera á spiklag hvalanna. Skurðurinn var staðsettur við hjartað svo auðveldara væri að stinga beint á það, en með því móti drápust hvalirnir fljótt og örugglega. Við stunguna tóku þeir hinsvegar mikinn sársaukakipp svo að minnstu munaði að Eggert, sem þurfti að halda jafnvægi á hálum hafísnum, félli í sjóinn. Hvalirnir dóu þó samstundis og sukku. Að þessu öllu loknu þurfti að bíða í tvo til þrjá daga eftir því að hvalirnir kæmu aftur upp á yfirborðið þegar gas myndaðist í innyflum þeirra sem lét þá fljóta. Þá hófst hvalskurðurinn, sem bjargaði fólki víðsvegar um landið frá hungursneyð veturinn á eftir.
Þar sem hvalirnir ráku á land við Ánastaði sem voru í meirihlutaeigu Eggerts Jónssonar, átti hann stærsta hluta hvalrekans. Þegar menn mættu til að skera hvalinn niður ákvað hann að þeir skyldu eiga helming hvalsins sem þeir skæru. Þetta þótti mjög óvenjulegt og rausnarlegt því venjan var að skurðarmenn fengju aðeins á milli fjórðungs og þriðjungs af hvalskurðinum. Eggert leit hinsvegar ekki á hvalrekann sem sína einkaeign, og fékk aldrei greitt fyrir hann eins og venja var. Hann taldi hvalrekann guðsgjöf sem hann bæri ábyrgð á að koma til sem flestra heimila á þessum harðindatímum. Hvert einasta heimili í Húnavatnssýslu fékk úthlutað skammti af hval. Hluti hvalkjötsins fór einnig til Skagafjarðar, í norðurhluta Borgarfjarðar- og Mýrarsýslu sem og til Dalasýslu og norður á Strandir. Heilann hval sendi Eggert í Saurbæjarhrepp í Dalasýslu, en sá hreppur þótti verst settur í yfirstandandi harðindum.
Gjafmildi Eggerts þótti ómetanleg því enn erfiðari tímar tóku við. Allt næsta sumar var veðrið vont og stöðug norðanátt. Fram á mitt sumar var frost flestar nætur og snjóaði. Búskapur erfiður þessar aðstæður, bændur voru heylausir og fjárdauði mikill. Á mörgum bæjum lifði ekkert lamb og fullorðið fé féll einnig. Ekki bætti það ástandið að ekkert vöruskip kom á Húnaflóa um haustið, líkt og venja var. Nauðsynjavörur voru því orðnar ófáanlegar um haustið og hungursneyð vofði yfir. Eina fæða fólks víða í Húnaþingi þetta haust voru mjólkurvörur og hvalurinn góði frá Ánastöðum. Hvalrekinn mikli á Ánastöðum varð því til þess að bjarga mörgum sveitum frá yfirvofandi hungursneyð á þessu harðindaskeiði."

 

Dalvík - Varðskipið Baldur í Þorskastríðinu

Hefur þú heyrt um varðskipið Baldur og hvernig það tók þátt í Þorskastríðinu?
Hlustaðu á sögu frá Jóhanni Antonssyni.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Vilhjálmi Bergmanni Bragasyni.

 

"Árið 2020 eru 44 ár liðin frá því síðasta þorskastríðinu milli íslendinga og Breta lauk og lögsaga Íslands var færð úr fimmtíu sjómílum í 200. Ég ætla að fjalla um dalvískan vinkil í síðasta þorskastríðinu, sem sumir segja að hafi ráðið úrslitum um farsæl lok þeirrar deilu. Aðalsteins Loftsson lét smíða skuttogara í Póllandi sem kom til Dalvíkur í júnímánuði 1974. Aðalsteinn átti fyrir síldveiðiskipið Loft Baldvinsson EA 24 sem var það skip islenska flotans sem var með mesta aflaverðmæti ár eftir ár á þeim tíma. Togarakaupin voru liður í væntanlegri endurskipulagningu útgerðar og fískvinnslu Aðalsteins. Togarinn, sem bar nafnið Baldur EA 124, var systurskip nokkurra annarra togara sem komu um svipað leyti til landsins.
Skipin þóttu hin glæsilegustu í alla staði. Öll aðstaða var til fyrirmyndar, bæði fyrir áhöfn og til vinnu. Það var mikil breyting frá síðutogurunum sem þessir togarar tóku við af. Þessir togarar voru um 60 metra langir og 11 metra breiðir og mældust 741 brl.
Aðstæður Aðalsteins breyttust hinsvegar þannig að það varð úr að hann seldi togarann og varð það úr að ríkissjóður keypti hann. Var tilgangur ríkisins með kaupunum að Hafrannsóknastofnun eignaðist skipið, en fyrst fékk Landhelgisgæslan það til afnota og var þá Baldur orðinn varðskip og kominn í stríð .
Þriðja þorskastríðið er landhelgisdeila Breta og íslendinga sem stóð frá 1975 til 1976. Islenska ríkisstjórnin ákvað að landhelgin skyldi fœrð út ennfrekar og í þetta skipti í 200 sjómilur. Þann 15. nóvember 1975 tóku nýju lögin gildi. Bretar mótmæltu að venju hástöfum og neituðu að samþykkja útfærsluna og þann 16. nóvember 1975, aðeins sólarhring eftir að lögin tóku gildi, varð breski togarinn Primella frá Hull fyrir togvíraklippunum. Deilurnar voru nú komnar á háskalega braut og beittu Bretar bœði dráttarbátum og freigátum til ásiglinga á íslensku varðskipin sem aftur á móti voru óþreytandi við að klippa aftan úr bresku togurunum. Islendingar tóku til þess ráðs að breyta skuttogaranum Baldri EA 124 í varðskip og reyndist hann betri en enginn því hvorki meira né minna en þrjár breskar freigátur þurftu, áður en yfir lauk, að sigla til Bretlands til viðgerða eftir árekstur við Baldur. Islendingar slitu stjórnmálatengsl við Bretland í febrúar 1976 og hótuðu þvi að ganga úr NATO. Bretar og Islendingar funduðu í Osló þann 23. maí árið 1976 og náðust loks samningar og lauk þar með þorskastriðinu í júni sama ár."

Drangey - Veðurtepptur í nokkra daga

Hvernig ætli sé að vera veðurtepptur á eyju eins og Drangey í nokkra daga? 
Hlustaðu á sögu frá Viggó Jónssyni sem hefur stundað veiðar og siglingar útí Drangey í fjöldamörg ár.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Vilhjálmi Bergmanni Bragasyni.

 

"Ég heitir Viggó Jónsson og hef stundað veiðar og eggheimtu í Drangey í yfir 40 ár. Það er hluti af lífinu, að veiða sér til matar.
Það hafa verið stundaðar veiðar í Drangey í fjöldamörg ár. Það tengist sterkt matarkistu Skagafjarðar þar sem um 200 manns bjuggu í birgjum í fjörunni í Drangey hér á árum áður (byggðu virki og bjuggu í tjöldum) á vorin og veiddu fugla og egg og réru út á miðin að veiða fiska líka. Þetta stóð í nokkrar vikur á vorin.
Það voru mikið bændur úr sveitunum sem stunduðu þessar veiðar þar sem Sauðárkrókur byggðist ekki almennilega upp sem kaupstaður fyrr en eftir 1850 – fólkið í sveitunum var búið að borða saltfisk, saltkjöt, súrmat og annað allan veturinn þannig að það var mikil gleði að sjá þegar bændurnir komu til baka á hestunum sínum með ferskan mat.
Í gamla daga voru allar eyjar notaðar til beitar því landið var ekki svona gróið eins og það er núna. Það var ný komið undan ís og það var kalt og því voru eyjarnar kjörinn staður til beitar.

Í dag eru veiðar enn stundaðar í eyjunni en ekkert eins og það var. Það er ekki hættulaust að veiða eggin því það hrynur á mann og það þarf að hafa varann á þegar sigið er í björgin. Veiðarnar hafa þó minnkað með árunum og ekki eins mikið og var hér áður fyrr.

Ég á 3 börn, 2 stráka og eina stelpu. Þau byrjuðu að fara með mér að veiða fugl um 6 ára aldurinn.
Veðrið getur breyst hratt og þótt maður komist útí eyju er ekki víst að maður komist strax heim aftur og hef ég nokkrum sinnum lent í því að vera veðurtepptur í eyjunni í nokkra daga. Var verðurtepptur í eitt skipti með dóttur minni sem þá var 11 ára og við voru þarna í 5 daga, það eina sem við áttum eftir að borða voru kartöflur – henni þóttu kartöflur ekki góðar. En ég bjó til þessa fínu kartöflustöppu sem var besta kartöflustappa sem hún hefur smakkað og talar enn þann dag í dag um hve góð hún var á bragðið. Algjört ævintýri og krakkarnir lifa og hrærast í þessu með manni, þetta eru minningar sem standa uppúr núna þegar þau eru orðin fullorðin.

Ég lenti líka í því einu sinni að það var þýskur ferðamaður sem fór með okkur útí eyju. Ætlaði að skreppa í einn dag en endaði á því að vera veðurtepptur þarna með okkur í 5 daga. Hann kom til baka sem breyttur maður og öðlaðist nýja sýn á veiðar á dýrum eftir dvölina með ókunnugum mönnum á þessari eyðu eyju."

Grenivík - Fæddur í hríðarbyl

Veðrið á Íslandi er síbreytilegt og veturnir oft erfiðir með snjóstormum og ófærð.
Hlustaðu á söguna hans Ingólfs Kristins Ásgeirssonar þegar hann segir frá degi sem móðir hans mun seint gleyma – dagurinn sem hann kom í heiminn.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Vilhjálmi Bergmanni Bragasyni.

 

"Ég heitir Ingólfur Kristinn Ásgeirsson. 
Ég ólst upp á Grenivík við mikið frjálsræði og í minningunni var alltaf gott veður á sumrin. Við fórum út á morgnana og lékum okkur langt fram á kvöld, fórum bara heim þegar við vorum svöng. 
Á veturna kom venjulega mjög mikill snjór, það var oft stórhríð í marga daga og mikil ófærð. Þannig veður var þegar ég fæddist þann 3.janúar 1968. Mig langar að segja ykkur stuttlega frá þeim degi þótt ég mun ekkert eftir honum, en móðir mín gleymir honum seint. 
Um morguninn er mamma komin með mikla verki og finnur á sér að það er farið að styttast í fæðinguna. Henni líst ekki á blikuna því úti var brjálup stórhríð og það sást ekki í næsta hús. Allir vegir voru kolófærir. Það var ákveðið að reyna að komast með snjóbíl til Akureyrar, á fæðingadeildina þar. Björgunarsveitin á Grenivík átti lítinn snjóbíl og faðir minn sá um að keyra hann. Pabbi fær félaga í björgunarsveitinni til að moka bílinn upp með sér því bæði hús og tæki voru á kafi í snjó. 
Þegar bíllinn var klár og það átti að fara að sækja mömmu þá sáu björgunarsveitarmenn að snjóbíllinn var ekki á númerum. Það sem þeir voru frekar löghlýðnir var ákveðið að fara til hreppstjórans og sækja númerin, því ekki væri gott ef þeir rækjust á lögregluna á Akureyri og væru sektaðir. Hreppstjórinn bjó 3km sunnan við Grenivík og tók ferðalagið fram og til baka 1 klukkutíma. 
Konunum þóttu þetta ferðalag eftir númeraplötunum ekki gáfuleg ráðstöfun, það skipti litlu máli hvort það væri númer á bílnum eða ekki í þessu brjálaða veðri. Þegar allt er klárt er mamma lögð á börur í þennan pínulitla snjóbíl og lagt af stað. Með pabba voru 2 aðstoðarmenn til að hjálpa, því ekki veitti af. Það þurfti að halda börunum stöðugum og á löngum köflum þurfti annar að labba á undan bílnum því ekki sást útúr augum. Ferðalagið gekk hægt en örugglega fyrstu 15 km en þá munaði litlu að illa færi þegar bíllinn fór nánast á hliðina og munaði litlu að hann rúllaði framaf. Menn náðu þó að rétta bílinn og allt fór vel. Svona mjakaðist litli snjóbíllinn kílómeter fyrir kílómeter í rólegheitunum áfram. Þegar nær dró Akureyri fór veðrið að skána og hægt að keyra hraðar. Ekki veitti af því litli strákurinn vildi ólmur fara að koma í heiminn. Þegar á sjúkrahúsið er komið er mamma borin inn á börunum og lögð í rúm þar sem pabbi rétt nær að kveðja hana áður en hann fer til baka útá Greivík því á þessum tíma máttu karlmenn ekki vera viðstaddir fæðingu. Manna er drifin inná fæðingadeildinga og ekki mátti tæpara standa því þegar hún kom innúr dyrunum þá skaust ég í heiminn háorgandi og hef ekki þagnað síðan, segja allavega sumir!
Um það bil viku seinna sækir pabbi okkur á fæðingadeildina og við höldum heim á Grenivík. Þá var veðrið mun betra, búið var að moka veginn og ferðalagið gekk betur. 
Þetta ferðalag, þann 3. Janúar 1968 tók um 6 klukkustundir en í dag, á venjulegum degi tekur það um 30 mínútur."

Grímsey - Hvernig er að alast upp í Grímsey?

Hvernig ætli sé að alast upp í Grímsey?
Hlustaðu á sögu frá Huldu Signý Gylfadóttur sem er fædd og uppalin í eyjunni.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Birnu Pétursdóttur.

"Ég heiti Hulda Signý Gylfadóttir og er fædd árið 1975. Ég er alin upp í Grímsey ásamt bræðrum mínum. Ég á tvær eldri hálfsystur sem ólust upp uppi á landi.
Að alast upp í Grímsey var dásamlegt. Allir á eyjunni voru í miklu samneyti, fólk var duglegt að hittast og börn ólust upp með fjölbreyttan aldurshóp í kringum sig þar sem við áttum í miklum samskiptum við fullorðið fólk.
Við vorum með í öllu, það var enginn leikskóli eða eftirskólavistun svo við fórum með á bjarg, tókum þátt í heyskap og öðrum verkum. Þegar farið er á bjarg er verið að síga niður bjargið eftir svartfuglseggjum. Þá fóru karlar upp á bjarg (voru alltaf karlmenn þegar ég var krakki) og einn sat við traktorinn og ýmist hífði eða slakaði reipinu (eftir því sem sigmaðurinn kallaði að ætti að gera), einn seig og þriðji var á “sjónbjargi”, en þá lá hann frammi á brúninni og kallaði til þess sem slakaði og hífði hvað sigmaðurinn vildi láta gera. Svo var mikil spenna að fá að telja eggin þegar sigmaðurinn kom upp með pokann.
Foreldrar mínir voru með kindur, en það voru nú aðallega bræður mínir sem tóku þátt í að sjá um þær, ég var meira fyrir að leika bara við lömbin á vorin, en var ekki að miklu gagni í fjárhúsunum. Á vorin fórum við líka í kríueggjaleit, borðuðum bjargegg og komumst í sumarfrí.
Í skólanum voru bara tvær kennslustofur, yngri deild og eldri deild og þar lærðu nokkrir árgangar saman í hvorri þeirra. Það var engin sundlaug svo reynt var að koma börnum á sundnámskeið á sumrin.
Við lékum okkur mikið út við, úti um alla eyju, bæði á sumrin og veturna. Fórum í fjöruferðir og týndum kuðunga, sjóhatta og skeljar, sigldum á Sandvíkurtjörninni, dunduðum okkur í “búinu” (litlum kofa sem við áttum), lékum okkur í snjónum, fórum á skauta á Sandvíkurtjörninni og lékum okkur í útileikjum á kvöldin. Yfirleitt vorum við allt árið í Grímsey, fórum í land ca. einu sinni á ári þegar farið var í sumarfrí “upp á land”. Ég upplifði mikið frelsi og naut mín í eyjunni minni.
Skólinn heima var bara barnaskóli svo þegar við þurftum að fara í gagnfræðaskóla þurftum við að fara og vera í burtu yfir veturinn. Ég fór til Ísafjarðar þegar ég var tólf ára og saknaði eyjunnar og fjölskyldunnar mikið."

Hrísey - Hvönn til lækninga

Vissir þú að hvönn hefur verið nýtt til lækninga frá örófi alda?
Hlustaðu á sögu frá Lindu Maríu Ásgeirsdóttur sem býr í eyjunni og notar hvönn mikið á veitingastaðnum sínum.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Vilhjálmi Bergmanni Bragasyni.

 

"Hvönn hefur verið nýtt til lækninga frá örófi alda og þykir hún einstaklega góð við þvagblöðru kvillum og segja elstu menn eyjarinnar að klósettferðir að næturlagi tilheyri fortíðinni eftir að þeir fóru að drekka hvannarte. Einnig eru sömu virku innihaldsefni í hvönninni og Vigara (mínus bláa litinn), þannig að við segjum að hún sé hollari en Viagra. Nýjustu tilraunir hafa verið að vinna úr hvannarrótinni og þá er hún þurrkuð og möluð og verið er að kanna möguleikana á að nýta hana frekar. Þetta er gert í samstarfi við fleiri aðila bæði í vínframleiðslu og náttúruvörum.
Hrísiðn var stofnuð í kringum amboðaframleiðslu árið 2004. Stofnendur eru hjónin Bjarni Thorarensen, vélvirkjunarmeistari vélstjórn frá Vélskóla Íslands og Sigríður Magnúsdóttir fiskvinnslukona og húsmóðir.
Í Hrísiðn eru framleiddar hrífur af öllum gerðum og stærðum og sláttuorf. Hægt er að kaupa hrífur og þurrkaða hvönn af þeim hjónum. Einnig eru hrífur seldar í hinum ýmsu verslunum og þurrkaða hvönnin líka.
Hrísiðn er með vottun frá vottunarstofunni Tún fyrir lífræna og sjálfbæra framleiðslu við vinnslu náttúrulegra afurða.
Árið 2007 hófst samstarf við Saga medica um tilraunavinnslu á hvönn í Hrísey og árið 2009 hófst fyrir alvöru vinnsla á hvönn.
Sumarið 2010 var svo fjárfest í þurrkgám hann innréttaður ásamt vinnslurými og við það jókst framleiðslan í dag eru þrír þurrkgámar í notkun og er verið að selja yfir 1 tonn af þurrkaðri hvönn á hverju ári til SagaNatura sem er eini viðskiptavinurinn og framleiðir náttúruvörur úr hvönninni.
Skemmtilegt er að segja frá því að yfir sex vikna tímabíl frá miðjun júní fram í byrjun ágúst (fer eftir vexti plöntunnar og veðurfari) þá eru ráðnir sex til tíu starfsmenn sem sjá um að tína hvannarlauf og er vigtað frá hverjum og einum starfmanni, hvað hann tínir mikið magn á dag. Þetta hafa ýmist verið unglingar úr eyjunni með eldra fólki eða erlendir aðilar sem koma gagngert til að vera í uppskerunni. Síðustu fjögur ár hefur starfsmannahópurinn verið með svipuðu móti þ.e. nokkrum erlendum aðilum sem koma á hverju sumri og líkar vel að dvelja í Hrísey yfir þennan besta tíma ársins.
Nánast allur búnaður hjá fyrirtækinu er smíðaður af Bjarna sjálfum og eru þarna alveg mögnuð tæki sem hafa orðið til í höfðinu á honum og sjálfsagt einu eintökin.
Fyrirtækið starfar allt árið og eru unnar hrífur yfir veturinn og er hver hrífa handunnin sem er frekar tímafrekt. Hvönnin er nýtt bæði þurrkuð lauf og fræ. Laufin möluð og seld sem te og fræin eru seld sem krydd."

 

Kópasker - Skjálftinn mikli

Hefur þú upplifað jarðskálfta?
Hlustaðu á sögu frá Hólmfríði Halldórsdóttur sem bjó á Kópaskeri þegar stóri skjálftinn reið þar yfir árið 1976.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Birnu Pétursdóttur.

 

"13 janúar 1976 varð stór jarðskjálfti ( um 6,3 stig á ricther) á Kópaskeri og voru upptökin um 12 km frá þorpinu út á sjó og var þetta stærsti skjálftinn í hrinu sem hafði staðið frá 20 des.1975 þegar Kröflueldar hófust. Fundust þeir mest í Mývatni, Kelduhverfi og í suðurhluta Öxarfjarðar, en ekki svo mikið hér á Kópaskeri bara þeir stærstu og var sá öflugasti á jóladag.

Ég hafði farið í kaupfélagið eftir hádegi með son minn og vin hans sem ég var að passa,( þeir voru báðir að verða 5 ára ),var þá búðin full af fólki aðallega börnum,sem flest voru farin út þarna. Þegar ég var búin að versla sagði ég strákunum að bíða úti á meðan ég skryppi upp á skrifstofu sem var í sama húsi. Var ég rétt sest í stól við borðsendann hjá gjaldkeranum þegar við heyrðum miklar drunur og stökk hann þá á fætur og hinir 2 sem þar unnu líka ,en í sömu svifum fór allt á fleygiferð og hrundu möppur úr hillunum og mennirnir duttu á gólfið, ég reyndi ekki að standa upp en hélt mér dauðahaldi í borðið. Þá var klukkan 13:29. ekki veit ég hvað þetta stóð lengi en fannst mér sem húsið ætlaði aldrei að hætta að rugga eftir að skjálftinn var búin.

Þegar þetta var búið sögðum við öll í kór hvað gerðist í frystihúsinu, það var verið að skipa út kjöti og allmargir menn inni í frysti klefanum innan um kjöt skrokkana. Ég var líka hræddum að strákarnir hefðu farið aftur inní búðina því mamma hins stráksins var að vinna þar. En þeir höfðu gengt mér og voru báðir úti þegar ég kom út. Við löbbuðum svo heim og voru þeir eins og hérar hoppandi yfir sprungurnar í snjónum og ræddu um jarðskjálftann og var niðurstaða þeirra sú að best væri að berja hann með stórri sleggju svo hann hætti þessu.
Ég skildi hinn drenginn eftir heima hjá honum því pabbi hans var komin heim, þegar heim kom fórum við að laga til en ekki hafði mikið skemmst heima hjá mér svo við fórum í annað hús þar sem ég vissi að konurnar voru búnar að vera órólegar út af skjálftanum og voru þær fluttar burt með þeim fyrstu(en fljótlega var ákveðið var að flytja konur, börn og eldra fólk í burtu þar sem allar vatns lagnir voru rofnar og einnig var búist við öðrum stórum skjálfta ( sem reyndar kom aldrei) og ekki var vitað um ásigkomulag húsa.), en ég og sonur minn týndum upp af eldhúsgólfinu og settum allt heilt í hillur niður við gólf og sóttum svo snjó út og þrifum berja og rabba bara sultu af flísunum sem höfðu verið settar nýjar á rétt fyrir jólin.

Fórum við svo heim en þá var maðurinn minn komin heim en hann var á sjó svo til beint yfir upptökum skjálftans og sagði hann að það hefði verið eins og að keyra á fullri ferð á klett ,en þarna er ekkert sem hægt er að rekast á og ekkert annað skip á svæðinu, þeir voru allir niður í lúkar að borða og þegar hann kom upp sauð og bubblaði sjórinn allt um kring eins langt og hann sá,sonurinn lýsti aftur á móti skjálftanum fyrir pabba sínum að jörðin hefði hoppað eins og hálfviti. Um það leiti sem farið var að flytja fólkið burt var komin norðaustan stormur og farið að snjóa.
Um kl. 5 kom bíll sem ég og sonurinn ásamt annari konu með 3 börn áleiðis til Húsavíkur. Veðrið versnaði þegar leið á kvöldið og þegar við vorum að keyra á vestanverðu Tjörnnesi yfir 3 djúp gil var svo blindað að ég setti höfuðið út farþegamegin og bílstjórinn sín megin og sagði ég honum hvar vegkanturinn væri, ekki sást vegurinn öðruvísi og keyrðum við þannig til Húsavíkur. Þar gistum við um nóttina hjá bróður mínum ,en daginn eftir var komið gott veður og ætlaði ég til Akureyrar til systur minnar með póstbílnum en það var ekki pláss fyrir okkur með honum en við fengum far með vörubíl sem var að fara inn á Svalbarðsströnd eftir kartöflum,Við Ljósavatn var mjög stór skafl og þegar við vorum komin í gegnum hann fékk bílstjórinn fyrirmæli um að snúa við því það var komið svo mikið frost að ekki var hægt að flytja kartöflurnar á opnum bílpallinum eins og áætlað var. Hann dró nú póstbílinn yfir skaflinn og sneri svo við en ég og sonurinn fengum að sitja á póstpokum að Stóru Tjarnarskóla .Þar fengu allir að borða og kom svo bíll frá Akureyri á móti okkur svo að allir kæmust á leiðarenda.

Það var svolítið skrítið að hlusta á fólkið í póstbílnum tala um skjálftann, það voru komnar svo margar sögusagnir á kreik og allt sagt enn verr en það í rauninni var hvað varðaði skemmdir og meiðsl á fólki og hvíslaði sonurinn að mér “ mamma eru þau að tala um skjálftann heima var þetta svona?“Sem betur fer slasaðist enginn alvarlega, stærstu meiðsl voru eitt nefbrot og eitt tábrot fyrir utan mar og skrámur. Og var alveg ótrúlegt lán sem var yfir okkur öllum,og margar tilviljanir sem urðu til þess að ekki varð stórslys. Hálfum mánuði seinna fórum við svo heim aftur um leið og vatn komst á þorpið."

 

Siglufjörður - Líf síldarstúlkunnar

Hvernig ætli lífið hafi verið sem síldarstúlka?
Hlustaðu á söguna hennar Birnu Björnsdóttur sem byrjaði að vinna sem síldarstúlka á 7 ára afmælisdaginn sinn.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Birnu Pétursdóttur.

 

"Ég heiti Birna Björnsdóttir og er 77 ára gömul. 
Á 7 ára afmælisdaginn minn rættist draumurinn þegar ég fór með mömmu að salta síld í fyrsta skipti. Ég var búin að bíða spennt eftir að geta byrjað að taka þátt í söltuninni. Við sem litlar stelpur æfðum okkur að raða þvottaklemmum í makintos dalla, svo spennandi þótti okkur að fá að taka þátt. 
Ég var svo lítil að ég náði ekki ofaní síldartunnurnar þannig að ég stóð uppá söltunarkassa og mamma lagði niður í miðja tunnuna og ég tók við eftir það. Hún kenndi mér handtökin. 
Þennan fyrsta dag stal ég hnífnum þegar hún skrapp frá í kaffi – ekki var hún ánægð með mig þá en sá fljótt að ég kunni vel handtökin og átti erfitt með að banna mér að munda hnífinn eftir það. 
Ég var síldarsjúk og er enn.
Mér fannst aldrei vera komið sumar fyrr en síldarbátarnir komu – þá fylltist bærinn af allskonar fólki. 
Flest allar konurnar í bænum unnu sem síldarstúlkur á sumrin. 
Þetta var mikið líf og fjör og ekki skemmdi fyrir að bærinn fylltist af fallegum strákum líka. Þetta var svo skemmtilegur tími. Já það var mikið unnið og mín lengasta vakt var einn og hálfur sólarhringur. Ég ætlaði að ná að vinna 2 sólarhringa í röð, pabbi ætlaði aldrei að ná mér heim … en við skemmtum okkur svo vel – fórum á böll, sungum og dönsuðum öll kvöld og fram á nótt. 
Þegar síldin kom inn með bátunum, þá þurftum við að vera tilbúnar að byrja að vinna. Ræsararnir, það voru strákar svona 11-12 ára, sáu um að ræsa okkur út þegar bátarnir komu inn. Gengu hús úr húsi og bönkuðu á svefnherbergisgluggana. Stundum vorum við á miðju balli þegar lúðrarnir blésu og við þurftum að fara að vinna aftur. Fórum þá úr sparigallanum og í vinnufötin. Það var aldrei unnið neitt eftir klukku og það voru auðvitað engir símar á þessum tíma. 
Ég átti heima í útjaðri bæjarins, svolítið frá söltunarstöðinni þannig að ég geymdi sparifötin mín hjá vinkonu minni sem átti heima í miðbænum. Þannig að strax eftir vinnu fór ég heim til hennar, fór úr stígvélunum og skipti yfir í sparigallann. Við gengum um göturnar í pinnahælum og dönsuðum og höfðum gaman… 

Ég elska síldina og hef verið sjúk í hana alla mína tíð, og er enn. Það er svo skemmtilegt að taka þátt í síldarsýningunum á sumrin hjá Síldarminjasafninu, hef verið í því í 30 ár. Þar söltum við síldina, syngjum og dönsum – skemmtum okkur eins og gert var í gamla daga. 
Þótt ég sé orðin 77 ára gömul er ég þakklát fyrir að hafa góða heilsu. Aldrei fékk ég í bakið og ég held að síldarvinnan hafi náð að halda mér í góðu formi. Eina sem er að hrjá mig er annað hnéið – en ég er sannfærð um að það vegna þess hve mikið ég hef dansað!"

Skagi - Sögur af draugum, forynjum eða jafnvel ísbjörnum

Ætli það séu draugar, forynjur eða jafnvel ísbirnir að þvælast á svæðinu?
Hlustaðu á sögu frá Sigrúnu Lárusdóttur sem er fædd og uppalin á Skaga.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Birnu Pétursdóttur.

 

"Selvík er vík á austanverðum Skaga, um 35 kílómetrum norðan við Sauðárkrók. Á eyðibýlinu Selnesi, við víkina norðanverða, má sjá greinilegar rústir verbúða. Þarna munu líka erlendir kaupmenn hafa verslað fyrr á öldum.
Selvík varð löggiltur verslunarstaður 27. nóvember 1903 og höfðu kaupmenn á Sauðárkróki þar verslunarútibú um skeið og ráku þar einnig fiskverkun.
Selvík kom við sögu á Sturlungaöld en þaðan sigldi floti Kolbeins unga áleiðis til Vestfjarða um Jónsmessu 1244 en mætti skipum Þórðar kakala á miðjum Húnaflóa og hófst þá Flóabardagi, eina sjóorrusta Íslandssögunnar.
Síðasti ábúandi á Selnesi var Jón Norðmann Jónasson, þekktur maður, fræðimaður í fornum fræðum og persónulega kunnugur ýmsum draugum á svæðinu. Hann var fæddur árið 1889 en lést árið 1976. Hann var kennari í Reykjavík á veturna en dvaldi á Selnesi á sumrin. Oft var reynt að koma á hann ódælum strákum sem töldu tíma sínum miklu betur varið í eitthvað annað en nám. Jón var laginn að komast að við þessa drengi og þegar hann fór norður að Selnesi að vorinu, þá var hann oft með hóp af þeim með sér sem hann reyndi að koma til manns yfir sumarið og það gekk ljómandi vel og voru þeir yfirleitt betri eftir sumarið og veruna hjá Jóni. Jón endaði kennslu sína á því að kenna stilltum sveitabörnum sem voru þarna í kringum hann. Ég var ein af hans nemendum og hann var skemmtilegur kennari og einstaklega gaman að hlusta á draugasögurnar hjá honum á kvöldin. Við vorum á heimavist og hann lét dæluna ganga. Eftir því sem leið á söguna, þá fóru börnin að draga fæturna uppundir sig á rúmstokknum því það var aldrei að vita hvað var undir rúminu og gat gripið í. Jón var ekki smeikur við drauga, forynjur eða nokkurn skapaðan hlut.
Það var eitt sem hann óttaðist öðru fremur og hafði mikla andstyggð á – það voru Rússar. Hann reiknaði alltaf með því að þeir myndu gera innrás hér á landi og eitt kvöld kemur skip inná Selnesvíkina og beinir ljóskösturum upp Selnesbjörgin. Þetta var varðskipið Albert sem var að reyna nýja ljóskastara! Nú fór um Jón. Hann sankaði saman strákastóðinu sem var hjá honum og hlóð þeim á Farmal Kubb traktor sem hann átti, þeir stóðu aftaná og einhverjir reyndu að hlaupa með. En hann ætlaði að komast undan á flótta áður en Rússarnir tækju land, en svo komst hann að því að þetta væru nú bara Íslendingar á skipinu svo það slapp nokkuð vel.

Skagi er það svæði á Íslandi þar sem mest er um ísbjarnakomur. Það hafa komið 3 birnir uppá Skaga síðustu ár. Þegar ég var krakki þá voru hafísár og ég var send að sjónum til að smala féinu, það þurft að koma féinu heim þótt það gætu verið birnir. Enginn var að segja mér að vera skelfingin uppmáluð, en nota samt augun, höfuðið og skynsemina ef ég skyldi sjá eitthvað ókennilegt dýr, þá væri best að koma sér heim á leið og láta rollurnar eiga sig. En það kom nú aldrei til en það eru til margar fleiri sögur um ísbjarnakomur á Skaga."

Ytra Lón - Hjartsláttur Móður jarðar

Hefur þú upplifað orkuna svo hreina og sterka, eins og þú finn hjartslátt Móður jarðar?
Hlustaðu á söguna hennar Mirjam Blekkenhorst og hvernig örlögin sendu hana til Íslands þegar hún var um tvítugt.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Birnu Pétursdóttur.

 

"Ég var liðlega tvítug. Um sumarið hafði ég verið í fríi í sænska Lapplandi, bara ég og nokkrir vinir með bakpokana okkar. Við gengum í hrjóstrugri og villtri náttúru Sarek-þjóðgarðsins. Við drukkum ferskt vatn úr lækjum og ám og féllum í stafi yfir gylltu sólarlaginu yfir fjöllunum. Þessi upplifun hreyfði við mér. Ég hafði ekki upplifað neitt slíkt áður því ég ólst upp í þéttbýlu landi þar sem hver skiki er ræktaður.

Þegar ég snéri aftur til Hollands fannst mér ég vera utanveltu. Ég fann ekki tilganginn með náminu í listaháskólanum sem ég var skráð í. Tilfinningin að þurfa að komast í burtu frá þessu landi var yfirþyrmandi, bara eitthvert, út í náttúruna...

Forlögin sendu mig til Íslands.

Og þar lenti ég. Ég kom til Reykjavíkur snemma í nóvember. Eftir nokkrar vikur fann ég að ég þurfti að komast út úr borginni og í þetta skipti sendu forlögin mig til Norðurlands. Á Hólsseli, afskettum bóndabæ við jaðar hálendisins, vaknaði ég á fallegum, stilltum desembermorgni, og allt var þakið snjó. Orkan þar var svo hrein og sterk; ég fann hjartslátt Móður jarðar. Ég vissi að ég væri komin heim.

Í fyrsta skipti á ævinni leið mér eins og ég væri heima. En þremur árum síðar höfðu forlögin gert nýjar áætlanir fyrir mig og fyrir eiginmann minn, sem þá var kominn til sögunnar. Við þurftum að flytja.

Við byrjuðum að leita að stað sem var eins einangraður og hljóðlátur og staðurinn sem við höfðum vanist, stað þar við fyndum nægt beitarland fyrir kindurnar okkar og frjósamt land þar sem við gætum stundað búskap. Allt þetta fundum við hér, á Ytra Lóni á Langanesi. Þar var gnægð gróðurs fyrir kindurnar okkar og vatn og á full af silungi. Strendurnar voru þaktar rekaviði. Móðir jörð útvegaði allt sem við þörfnuðumst. Svo þangað fluttum við.

Ef ég á að vera hreinskilin fannst mér ég ekki eiga heima á Langanesi frá upphafi; þetta var ekki sama tilfinningin og á Hólsseli. Hún krafðist vinnu, þolinmæði og aðlögunarhæfni. Ég sá fuglana koma á vorin, en ég varð ekki vör við mikið fuglalíf. Ég var þakklát fyrir rekaviðinn, því við notuðum mikið af honum þegar við gerðum upp húsið. En ef til vill „skynjaði“ ég ekki almennilega hversu sérstakt þetta var.

Í hvert skipti sem ég snéri aftur til Hólssels táraðist ég. Það tók mig nokkur ár. Já, ég var með heimþrá. Ég saknaði gamla heimilisins míns og stundum Hollands. En ég vissi alltaf að það væri ástæða fyrir veru minni á Langanesi.

Við endurbyggðum Ytra Lón frá grunni eftir að húsin höfðu verið í niðurníðslu í mörg ár. Og við eignuðumst fjölskyldu. Fjölskyldan okkar stækkaði og nú eigum við fjögur börn. Þetta var mikil vinna, en landið var gjöfult og með hverju árinu sem leið áttaði ég mig betur og betur á ríkidæmi okkar.

Fuglar snúa aftur, einn af öðrum, á hverju vori. Þeir eignast unga, ala þá upp og fljúga síðan aftur til vetrarstöðvanna. Kindurnar okkar dvelja hjá okkur og sjá okkur fyrir afkomu ár eftir ár. Við lifum af landinu og í sátt við landið. Ég gæti ekki hugsað mér að lifa öðruvísi. Núna rekum við einnig gistiheimili og afdrep fyrir ferðamenn á landareigninni okkar. Við förum með gestina okkar í skoðunarferðir, segjum þeim frá bóndabænum og lífsstílnum okkar. Við sýnum þeim Langanes, fallega náttúruna, dýrin sem lifa þar villt og segjum þeim sögur. Ég nýt þess að kynnast fólki frá öllum heimshornum með þessum hætti. Það er stórkostlegt að þrátt fyrir að búa svona afskekkt fáum við tækifæri til þess að hitta allt þetta fólk. Fyrir það er ég afar þakklát.

Að taka þessa áhættu, að stökkva um borð í flugvél snemma á þrítugsaldri, var besta ákvörðun lífs míns. Orkan hérna við jaðar heimskautsbaugs er svo hrein, fólkið sem býr hér er svo jarðtengt og í nánu sambandi við umhverfi sitt. Fyrir mér var það ást við fyrstu sýn þegar ég kynntist Íslandi og Íslendingum og ég vissi að ég myndi aldrei hverfa aftur til „siðmenningarinnar.“

Þrístapar - Síðasta aftakan á Íslandi

Hefur þú heyrt um síðustu aftökuna á Íslandi?
Hlustaðu á sögu frá Magnúsi Ólafssyni þar sem hann segir frá þegar pabbi hans og afi grófu upp bein Agnesar og Friðriks.


Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á söguna ásamt því að sagan er rituð neðar á síðunni.
Sagan er lesin af Vilhjálmi Bergmanni Bragasyni.

 

"Agnes og Friðrik höfðu verið dæmd til dauða fyrir morð á tveimur mönnum aðfaranótt 14. Mars 1828, Natans Ketilssonar bónda á Illugastöðum og Péturs Jónssonar frá Geitaskarði.
Sýslumaðurinn Björn Blöndal lét útbúa sérstaka upphækkun fyrir aftökuna. Þetta var staður sem hann valdi vegna góðs aðgengis og hér var auðvelt að ná 150 manns saman og allir áttu að horfa á. Raðaði þeim í þrjár raðir í kringum aftökustaðinn og það mátti enginn undan líta. Þeir bændur sem voru forfallaðir þurftu að senda vinnumann í sinn stað.
Friðrik kom ríðandi til aftökunnar á hesti sínum, fór af og kastaði kveðju á fólkið, heilsað Blöndal sýslumanni og Guðmundi böðli. Ungur maður sem ekki var orðinn tvítugur og kemur syngjandi til sinnar eigin aftöku.
Guðmundur böðull gekk til síns verks og höfuðið rúllaði af í einu höggi.
Áhorfendurnir hafa væntanlega staðið svo nálægt að ekki sé ólíklegt að það hafi fengið blóðslettur yfir sig.
Agnes kom hinsvegar með allt öðru hugarfari. Hún kom mjög niðurhnípt á staðinn og fannst hún ekki hafa komið sinni málsvörn að hvernig með hana var farið. Hún náði aldrei að vinna úr þessum málum meðan hún var í þessum heimi. Hún fór mjög ósátt. Er jafnvel ósátt enn og finnst allt hafi verið sér mótdrægt og enginn vildi hlusta á hana meðan hún var enn á lífi. Fátækar vinnukonur áttu engan málsvara árið 1828. Þær áttu bara að sitja og standa eins og húsbóndinn bauð. Það þarf að setja sig inní aðstæður – hvað eiga ungar konur að gera þegar þær eru fastar í vistarböndum hjá mönnum sem stjórna algjörlega öllu. Þú kemst ekkert í burtu.
Það er vitað mál að Agnes og Sigríður reyndu báðar að komast í burtu frá Illugastöðum. Húsbændurnir voru allsráðandi á þessum tíma og vinnukonurnar voru ekki merkilegar.

Það mátti ekki grafa sakborninga í vígðri mold á þessum árum þannig að þau voru dysjuð nálægt aftökustaðnum. Höfuðin sett á stangir eins og lög þess tíma geri ráð fyrir. Morguninn eftir aftökuna voru höfuðin horfin.
Enginn vissi hvað varð um höfuðin en hún Guðrún, húsfreyja á Þingeyrum hafði þá sent ungan vinnumann af stað og bað hann um að taka höfuðin niður og setja í nýtekna gröf á Þingeyrum. Henni fannst ekki annað hægt en að grafa höfuðin.
Mörgum árum seinna, kemur maður til afa míns sem bjó á Sveinsstöðum þar sem Þrístapar standa. Hann sagðist vera búinn að fá leyfi til að grafa upp bein Agnesar og Friðriks og bað afa um að hjálpa sér. En afi sagði að það gæti verið mjög erfitt þar sem hann vissi ekkert hvar gröfin væri, hann væri búinn að búa þarna alla sína tíð og oft velt fyrir sér hvar hún væri en vissi það ekki.
Maðurinn kom með upplýsingar um hvar gröfin gæti verið þar sem hann væri þangað kominn að beiðni Agnesar Magnúsdóttur, hún hefði sent skilaboð með ásjálfráðri skrift, til að gera þetta.
Maðurinn bætti við að Agens hefði komið því áleiðis að vinnumaðurinn á Þingeyrum hefði sannarlega farði út um nóttina eftir aftökuna en brast kjarkur að bera höfuðin 6km leið að kirkjugarðinum á Þingeyrum. Hann gróf því höfuðin nálægt þar sem kassinn með líkum okkar er grafinn, segir Agnes í skriftinni. Hann náði ekki mínu höfði af stönginni þannig að hann braut stöngina, segir Agnes.
Þeir byrjuðu að grafa – þessi maður, afi minn og pabbi minn sem þá var 19 ára.
Það tók þá 15 mínútur að finna gröfina með því að reka niður járnstöng, þeir fundu spýtur þar undir, bein Agnesar og Friðriks voru grafin í kassa og þegar þeir héldu áfram að grafa fundust tvær höfuðkúpur…. Það var 10cm spýtubrot við aðra þeirra.
Bein þeirra voru grafin upp og lögð í vígða mold á Tjörn á Tjörnesi, 104 árum seinna.

Það er magnað hvernig Agnes kom því til leiðar að bein þeirra Friðriks voru grafin upp. Hvernig hún kom skilaboðum til skila í gegnum þessa konu sem skrifar niður að þau vilji að bein þeirra verði lögð í vígða mold og Agnes vísar á hvar höfuð þeirra eru grafin, nálægt aftökustaðnum sjálfum. Hörðustu efasemdarmenn sem hafna lífi eftir þessa jarðvist eiga erfitt að finna mótrök gegn því sem á borði liggur."