Skagaströnd

Á Skagaströnd er að finna fagra náttúru í fjölbreyttu landslagi og gróðri hvert sem litið er. Glæsileiki Spákonufells trónir yfir bænum en þar eru stikaðar gönguleiðir upp fjallið. Á toppnum upplifa göngugarpar tignarlegan kraft þessa einstaka fjalls.

Í Nesi listamiðstöð dvelja listamenn frá mörgum heimshornum, þar er jafnvel hægt að kíkja við og sjá hverju verið er að vinna að.

Spákonufellshöfði, yfirleitt þekktur sem Höfðinn, er vinsælt útivistarsvæði og hentar vel þeim sem ekki leggja í að takast á við fjallið. Þar er val um merktar gönguleiðir meðfram strandlengjunni og upplýsingaskilti um gróður og fjölbreytt fuglalífið á svæðinu.

Þeir sem heillast af þjóðsögum og ævintýrum geta fundið minnisvarða um Jón Árnason, einn mesta þjóðsögusafnara í Evrópu, sem staðsettur er við Spákonufellshöfða. Úti á Skagaheiði er að finna mörg vötn full af silungi auk gönguleiða.

Skagaströnd státar af frábærum golfvelli þaðan sem stórkostlegt útsýni er yfir Húnaflóa og yfir á Strandir. Í bænum er gott tjaldstæði með framúrskarandi aðstöðu. Á Skagaströnd er líka sundlaug og heitur pottur með útsýni yfir víðáttumikið haf.

Oft er höfnin á Skagaströnd iðandi af lífi þar sem sjómenn landa afla sínum upp úr öllum sínum litríku bátum, heimafólk og listamenn í göngutúrum í leit að innblæstri.

Skagaströnd - þar sem allir eru ávallt velkomnir.