Sauðárkrókur

Sauðárkrókur stendur við botn Skagafjarðar að suðvestan. Á Sauðárkróki er fjölbreytt þjónusta; sýningar, söfn, verslanir, veitingar, gisting, sjúkrahús, verkstæði, golfvöllur, skíðasvæði, íþróttavöllur, ærslabelgur, strandblakvöllur, sundlaug o.fl.

Í Aðalgötunni er verslun Haraldar Júlíussonar sem starfað hefur óslitið frá árinu 1919. Þar er einnig að finna ýmsar sérverslanir, veitingastaði og fyrsta flokks handverksbakarí. Tvær framúrskarandi sýningar eru í Aðalgötunni; Puffin & Friends og 1238 – Baráttan um Ísland. Þar er einnig að finna upplýsingamiðstöð. Stuttan spöl frá Sauðárkróki eru vinsælir ferðamannastaðir eins og Grettislaug og gamli bærinn í Glaumbæ. Daglegar ferðir eru farnar í Drangey frá smábátahöfninni á Sauðárkróki yfir sumartímann og eftir samkomulagi yfir vetrarmánuðina.

Brekkurnar fyrir ofan bæinn kallast Nafir og eru fornir sjávarkambar. Á Nöfunum er útsýnisskífa þar sem hægt er að njóta þess að horfa yfir fjörðinn. Einnig er golfvöllur upp á Nöfum. Ótal gönguleiðir er að finna á Sauðárkróki og nágrenni.

Sauðárkrókur er einn öflugasti byggðarkjarni landsbyggðarinnar þar sem saman fer öflug útgerð, úrvinnsla afurða af stóru landbúnaðarsvæði og þjónusta sem jafnast á við það besta sem býðst á landsbyggðinni.

Austan við Sauðárkrók er Borgarsandur, tæplega fjögurra kílómetra löng svört sandfjara. Þar er upplagt að labba um og njóta útsýnisins út fjörðinn þar sem eyjarnar Drangey og Málmey ásamt Þórðarhöfða blasa við. Við Áshildarholtsvatn er fjölskrúðugt fuglalíf en þar má finna upplýsingaskilti um fugla. Mikið fuglalíf er einnig við ósa Héraðsvatna og á Miklavatni.