Bakkafjörður

Á Bakkafirði snýst lífið að mestu um fiskinn í sjónum og réttinn til að hafa lífsviðurværi sitt af veiðum á honum! Bakkafjörður býður upp á ótalmarga útivistarmöguleika, gönguferðir, fuglaskoðun, fjöruferðir og fleira. Gaman er að skoða gömlu höfnina og lífið í kringum þá nýju sem er skammt innan við þorpið. Skemmtileg gönguleið liggur út að Steintúni og áfram út að vitanum á Digranesi. Gönguslóð er einnig með Viðvíkurbjörgunum í Viðvík og þaðan yfir að Álftavatni og til Bakkafjarðar. Kyrrð og friður, fuglalíf og náttúrufegurð einkenna svæðið. Spriklandi fiskur er í ám og vötnum sem hægt er að fá að veiða. Sundlaug er í Selárdal í 30 km fjarlægð frá Bakkafirði, laugin er í eigu Vopnfirðinga og er magnað útsýni til fjalla þaðan og á laxveiðitímanum er hægt að fylgjast með laxveiðimönnum glíma við laxinn í Selá sem rennur rétt neðan við laugina í Selárdal.